Viggó skaut Árósamenn í kaf

Viggó Kristjánsson átti stórleik með Randers í dönsku úrvalsdeildinni í …
Viggó Kristjánsson átti stórleik með Randers í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seltirningurinn Viggó Kristjánsson fór hamförum í kvöld þegar lið hans Randers vann óvænt Århus Håndbold, 30:23, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik en alls mættust fimm íslenskir handknattleikmenn á vellinum í þessari viðureign. 

Viggó skoraði 12 mörk fyrir Randers sem hefur ekki átt góðu gengi að fagna í deildinni á keppnistímabilinu og rekur lestina með átta stig eftir 19 leiki.  Arnór Freyr Stefánsson er annar markvörður Randers-liðsins. Hann kom lítið við sögu. 

Ómar Ingi Magnússon bar af í slöku liði Århus Håndbold. Hann skoraði níu mörk. Róbert Gunnarsson skoraði einu sinni en Sigvaldi Guðjónsson komst ekki á blað yfir markaskorara að þessu sinni. 

Árósaliðið er í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar með 14 stig að loknum nítján viðureignum. 

Vignir Svavarsson skoraði tvö af mörkum Team Tvis Holstebro í jafntefli, 31:31, við SönderjyskE á heimavelli í kvöld. Gestirnir jöfnuðu metin á síðustu sekúndum viðureignarinnar. Vignir og félagar eru komnir upp í annað sæti deildarinnar. Þeir hafa 29 stig og eru þremur stigum á eftir Aalborg, sem Aron Kristjánsson þjálfar og þrír Íslendingar leika með.  

Egill Magnússon var ekki í leikmannahópi Team Tvis Holstebro að þessu sinni vegna meiðsla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert