„Alltaf sama tilhlökkunin“

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er svakaleg tilhlökkun í hópnum,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn Val sem fram fer á morgun.

„Við höfum beðið eftir þessum leik síðan við unnum Fram í Safamýrinni fyrir tæpur tveimur vikum og maður finnur hungur í liðinu,“ sagði Ásbjörn.

Valsmenn eru ríkjandi meistarar, en mun það gefa FH-ingum meðbyr í undirbúningi fyrir leikinn að vilja skella meistaraliðinu?

„Valur er með hörkulið og ég held að það skipti ekki máli hverjum við hefðum mætt núna, það væri alltaf sama tilhlökkunin í hópnum og sama löngunin til að vinna undanúrslitaleikinn. Mótherjinn skiptir kannski ekki öllu upp á það, en þeir hafa reynslu úr Höllinni og hafa spilað í Evrópukeppni í vetur svo við mætum reynslumiklu liði sem er gott í handbolta. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Ásbjörn.

Valsmenn spiluðu tvo Evrópuleiki á útivelli um liðna helgi og ferðuðust til Svartfjallalands. Telur Ásbjörn að þetta Evrópuferðalag muni hafa eitthvað að segja í leiknum?

„Nei, þeir fá fimm daga hvíld og ef þeir hugsa vel um sig á það ekki að skipta máli í 60 mínútna leik. Við reiknum bara með spræku Valsliði og við gerum hvað við getum til þess að vera sprækir líka,“ sagði Ásbjörn Friðriksson við mbl.is.

Leikur Vals og FH hefst klukkan 17.15 á morgun og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert