Þú mátt setja það í fyrirsögnina!

Gunnar Malmquist Þórsson t.h.í baráttu við Hákon Daða Styrmisson, leikmann …
Gunnar Malmquist Þórsson t.h.í baráttu við Hákon Daða Styrmisson, leikmann Hauka, í undanúrslitaleiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Gunnar Malmquist Þórsson átti góðan leik er Afturelding vann stórkostlegan endurkomusigur á Haukum í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins í kvöld. Hann var mjög sterkur í vörninni ásamt að skora mikilvæg mörk hinum megin. Haukar voru sjö mörkum yfir í hálfleik og viðurkennir Gunnar að Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar hafi látið sína menn heyra það í hálfleik.

„Einar Andri drullaði yfir okkur í hálfleik og tók hárþurrkuna. Auðvitað vorum við með trú á þessu, enginn var búinn að gefast upp. Það kom yfirveguð geðveiki í ljós í öllum seinni hálfleiknum, við ætluðum okkur þetta. Við erum ein stór fjölskylda og við uppskárum það sem við áttum skilið."

Hvað var Afturelding að gera öðruvísi í seinni hálfleik? 

„Ég veit það ekki, ég var svo mikið að lifa augnablikið að ég man varla eftir leiknum. Þetta var yfirveguð geðveiki, ég ætla að lýsa því þannig og þú mátt setja það í fyrirsögnina!," sagði hann léttur.

„Þeir eru með frábæra leikmenn sem voru að hitta gríðarlega vel. Sem betur fer hittu þeir ekki eins í seinni og við náum að stoppa þá. Þeir voru að setja hann hvað eftir annað í skeytin og inn."

Gunnar segist einfaldlega hafa verið að njóta lífsins í seinni hálfleiknum. Hann bætti svo við að með frammistöðu eins og í seinni hálfleik, verður erfitt fyrir ríkjandi bikarmeistara Vals að verja titilinn sinn á morgun. 

„Ég var bara að spila handbolta og hafa gaman, þetta er æðisleg tilfinning. Ég var að njóta þess að vera til inni á vellinum. Við þurfum að spila eins og við gerðum í seinni hálfleik til að eiga möguleika gegn Val," sagði Gunnar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert