Valur freistar þess að verja titilinn

Valsmenn eru skrefi nær því að verja bikarmeistaratitil sinn í handknattleik eftir að liðið lagði FH, 20:19, í fyrri undanúrslitaleik keppninnar í Laugardalshöll í sannkölluðum hörkuslag í kvöld.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að vörnin yrði í aðalhlutverki í þessum leik. Bæði lið voru gríðarlega baráttuglöð í vörninni og kom það niður á sóknarleiknum. Ágúst Elí Björgvinsson var stórgóður hjá FH og varði 12 skot í fyrri hálfleik og hélt FH inni í leiknum.

Það voru Valsmenn sem náðu yfirhöndinni eftir jafnar fyrstu mínútur. Valsmenn sigu hægt og bítandi fram úr og náðu mest fjögurra marka forystu, en þegar flautað var til hálfleiks var staðan 9:6 fyrir Val, sem segir mikið um varnarleik liðsins.

Ljótt atvik átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks. Ólafur Ægir Ólafsson í liði Vals lenti þá með höfuðið á steyptri súlu fyrir aftan endalínuna eftir baráttu, og var fluttur burt úr Höllinni með sjúkrabifreið. Það er rétt að óska honum góðs bata, en atvikið undirstrikar hvað Laugardalshöllin er algjörlega barn síns tíma og kolólögleg.

Fimm mörk í röð frá FH

FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti, en Valsmenn voru fljótir að vakna á ný og auka forskotið aftur í fjögur mörk. FH-ingar köstuðu boltanum klaufalega frá sér á mikilvægum augnablikum. En um miðjan seinni hálfleikinn fóru hlutirnir að snúast með Hafnfirðingum.

Þeir skoruðu fimm mörk í röð og komust yfir, 15:14, þar sem Ágúst hélt áfram að verja eins og berserkur í markinu og Óðinn Þór Ríkharðsson að refsa úr hraðaupphlaupum. Á meðan skoraði Valur ekki mark í um níu mínútur. Þegar Valsmenn komust aftur á blað var allt í járnum, og svo var til leiksloka.

Þegar rúm mínúta var eftir voru Valsmenn marki yfir, 20:19. FH-ingar fengu tækifæri til þess að jafna en tóku ekki af skarið í sókninni og Hlynur Morthens varði lokaskotið. Valsmenn spila til úrslita og þar verður mótherjinn annað hvort Haukar eða Afturelding.

Anton Rúnarsson var markahæstur Valsmanna með 5 mörk en hjá FH skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson 6. Ágúst Elí varði 18 skot í marki FH.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Valur 20:19 FH opna loka
60. mín. Ólafur Ægir Ólafsson (Valur) tapar boltanum Vörnin tekur þetta. 40 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert