Arnór fór á kostum í mikilvægum sigri

Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans hjá Bergischer unnu mikilvægan …
Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans hjá Bergischer unnu mikilvægan sigur í kvöld. AFP

Bergischer strengdi líflínu í baráttu sinni um að halda sæti sínu í þýsku efstu deildinni í handbolta karla með mikilvægum 29:25- sigri sínum gegn Coburg í 21. umferð deildarinnar í kvöld.

Bergischer er í næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig eftir þennan sigur og er þremur stigum frá Lemgo og Stuttgart sem eru í næstu sætum fyrir ofan fallsæti.  

Arnór Þór Gunnarsson var markahæsti leikmaður Bergischer með átta mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði 16 skoti í marki liðsins. 

Balingen sem leikur undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar laut í lægra haldi fyrir Gummersbach og mistókst þar af leiðandi að koma sér úr fallsæti deildarinnar. Balingen hefur 11 stig í þriðja neðsta sæti deildarinnar og er einu stigi á eftir liðunum sem sitja í sætunum fyrir ofan fallsæti. 

Bjarki Már Elísson komst ekki á blað fyrir Füchse Berlin þegar liðið bar sigur úr býtum, 28:24, gegn Göppingen. Füchse Berlin er í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig eftir þennan sigur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert