Hörð barátta um sæti í efstu deild

Ragnar Jóhannsson, leikmaður Hüttenberg.
Ragnar Jóhannsson, leikmaður Hüttenberg. Ljósmynd/Mark Thürmer

Hüttenberg sem leikur undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar gerði 29:29-jafntefli við Nordhorn í þýsku B-deildinni í handbolta karla í kvöld. Ragnar Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir Hüttenberg í leiknum í kvöld. 

Aron Rafn Eðvarðsson varði átta skot í marki Bietigheim þegar liðið bar sigur úr býtum, 26:25, gegn Bad Schwartau. 

Fannar Þór Friðgeirsson skoraði eitt mark fyrir Hamm sem gerði 24:24-jafntefli gegn Friesenheim. 

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði þrjú mörk í naumum 27:26-sigri liðsins gegn Íslendingaliðinu Aue. Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði sex mörk fyrir Aue, Bjarki Már Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir liðið og Árni Þór Sigtryggsson bætti við einu marki í sarpinn fyrir liðið.

Oddur Grétarsson var ekki í leikmannahópi Emsdetten sem lagði Konstanz að velli, 30:26. 

Hüttenberg og Bietigheim eru í harðri baráttu um að verða eitt þriggja liða sem tryggir sér sæti í efstu deild á næstu leiktíð. Hüttenberg er í öðru sæti deildarinnar með 34 stig og Bietigheim er sæti neðar með einu stigi minna. Rimpar Wölfe er síðan í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig. N-Lübbecke er á toppnum með 37 stig.

Eisenach er í sjöunda sæti deildarinnar með 28 stig, Emsdetten er í 10. sæti deildarinnar með 21 stig og Aue er í 12. sæti deildarinnar með 20 stig. Hamm er síðan í bullandi fallbaráttu, en liðið er í fjórða neðsta sæti deildarinnar með 17 stig og er einu stigi á eftir Saarlouis sem er í sætinu fyrir ofan fallsæti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert