Náðum að finna orkuna

Orri Freyr Gíslason Valsmaður.
Orri Freyr Gíslason Valsmaður. mbl.is/Ófeigur

„Við náðum að finna orkuna í okkur,“ sagði Orri Freyr Gíslason, leikmaður Vals, eftir sigurinn á Aftureldingu í úrslitum bikarkeppninnar í handknattleik karla í Laugardalshöll síðdegis. Orri fór fyrir Valsliðinu í varnarleiknum ásamt bróður sínum, Ými Erni, og þriðja hjólinu, Alexander Erni Júlíussyni.

„Aftureldingarmenn voru með orkuna í fyrri hálfleik en við náðum henni í síðari hálfleik. Svona er það í úrslitaleikjum. Við vorum heppnir en þeir óheppnir,“ sagði Orri Freyr enn fremur sem eins og fleiri leikmenn Vals segir að erfiðir og jafnir leikir Valsliðsins síðustu daga hafi e.t.v. ráðið miklu þegar upp var staðið.

„Allir leikirnir fjórir hafa verið eins og þessir, jafnir og spennandi. Maður má bara aldrei hugsa um það í jöfnum leikjum að maður geti tapað, heldur halda í vonina og trúna um sigur fram á síðustu sekúndu. Við erum sultuslakir og höldum kollinum rólegum hvernig sem gengur,“ sagði Orri Freyr Gíslason, leikmaður Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert