Jafntefli í spennandi fallslag

Aron Dagur Pálsson úr Gróttu reynir skot að marki Selfyssinga …
Aron Dagur Pálsson úr Gróttu reynir skot að marki Selfyssinga í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Grótta og Selfoss mættust í 21. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi. Niðurstaðan varð jafntefli, 29:29. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Selfoss er eftir leikinn áfram í sjötta sæti deildarinnar en nú með 18 stig. Grótta er með 16 stig, stigi frá botnliði Akureyrar.

Fyrri hálfleikur var mjög jafn en Selfyssingar náðu tveggja marka forskoti undir lok hans og var staðan í leikhléi 15:13 þeim í vil.

Markvarslan var mjög lítil hjá báðum liðum í fyrri hálfleik, og kom Einar Ólafur inn í markið hjá Selfossi þegar leið á hann, en Lárus Helgi Ólafsson í mark Gróttu í byrjun seinni hálfleiks. Lárus Helgi byrjaði vel og átti sinn þátt í að Grótta byrjaði seinni hálfleikinn betur og komst fljótt yfir, 18:17, með marki Finns Inga Stefánssonar úr hraðaupphlaupi.

Liðin skiptust svo á að hafa forystuna. Grótta missti Finn Inga af velli með rautt spjald 10 mínútum fyrir leikslok, eftir að hann braut á Hergeiri Grímssyni sem var að fara inn úr vinstra horninu. Þá var staðan jöfn, 25:25. Munurinn varð svo aldrei meiri en eitt mark það sem eftir lifði leiks.

Grótta fór í sókn þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks, eftir að Teitur Örn Einarsson hafði jafnað metin af vítalínunni. Sóknin var löng en hún endaði með því að dæmt var á Aron Dag Pálsson. Selfoss fékk 20 sekúndur í lokasókn sína en Lárus Helgi Ólafsson varði frá Einari Sverrissyni. Hergeir Grímsson náði reyndar frákastinu og skoraði en þá var leiktíminn liðinn.

Grótta 29:29 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið Jafntefli niðurstaðan. Grótta kemst þá stigi frá botninum og Selfoss er þremur stigum frá botninum. Grótta er með betri úrslit úr innbyrðis viðureignum liðanna í vetur og myndi því enda ofar ef aðeins þessi tvö lið enda jöfn að stigum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert