Aldrei skorað svona lítið í vetur

Andri Þór Helgason skoraði 6 mörk fyrir Fram í dag …
Andri Þór Helgason skoraði 6 mörk fyrir Fram í dag í afar mikilvægum sigri. mbl.is/Eggert

„Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við náum í úrslitakeppnina en öll liðin eru sterk og þetta verður barátta til enda,“ sagði Andri Þór Helgason, hornamaður Fram, sem átti góðan leik í 20:18-sigrinum á Val í Olís-deildinni í handbolta í dag.

Með sigrinum komst Fram upp fyrir Akureyri úr botnsæti deildarinnar, nú þegar liðið á þrjá leiki eftir.

„Við vorum komnir með bakið upp við vegg og þurftum heldur betur að kroppa í stig ef við ætlum okkur að ná sæti í úrslitakeppninni, sem við ætlum okkur að gera. Valsmenn voru þreyttir, það sást alveg á þeim, en þetta var hörkuleikur. Ég held reyndar að við höfum aldrei skorað svona lítið í vetur. Þetta var svolítið sérstakt,“ sagði Andri.

„Við vorum gríðarlega þéttir allan leikinn. Við lögðum upp með að loka á línuspilið hjá þeim því við vissum að þeir leita mikið að Orra á línunni. Ég held að við höfum náð því nokkuð vel. Hornamennirnir þeirra skoruðu ekki mikið og það var bara geðveikt að spila þessa vörn. Það er frábært að fá bara á sig 18 mörk gegn Val,“ sagði Andri.

Geggjað að spila í KA-heimilinu

Framarar gerðu jafntefli við FH í síðasta leik fyrir sigurinn í dag og virðast því á hárréttri leið:

„Við erum búnir að vera í jöfnum leikjum í flestum tilvikum. Við töpuðum með einu á móti Haukum og Stjörnunni, áttum að vinna síðasta leik gegn FH enda fjórum mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir, og unnum svo í dag,“ sagði Andri. Næst leika Framarar við Akureyri norðan heiða í afskaplega mikilvægum leik:

„Þetta verða þvílík slagsmál og það er bara geggjað að spila í KA-heimilinu með troðfullt hús og gamlar konur og karlar að rífa kjaft. Við fórum þangað í desember og það var bara geðveikt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert