Birna fór úr axlarlið – Óvíst með Hrafnhildi

Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. mbl.is/Golli

Tveir leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik meiddust í vináttulandsleikjunum tveimur gegn Hollandi sem fram fóru á föstudag og laugardag.

Birna Berg Haraldsdóttir fór úr axlarlið í seinni leiknum í gær, en hún var nýkomin til leiks þegar atvikið átti sér stað. Þá varð Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fyrir því að meiðast á hné í fyrri leiknum á föstudaginn, einmitt líka nánast í sinni fyrstu sókn í leiknum.

„Þær eru ekki með mikla verki í dag en eru stífar og eiga að fara í nánari skoðun á morgun,“ sagði landsliðsþjálfarinn Axel Stefánsson við mbl.is. Um er að ræða hægri öxlina hjá Birnu Berg, sem er ekki skotöxlin.

„Það er betra. Hún datt í liðinn aftur strax svo væntanlega verður þetta ekki mikið. Varnarmaðurinn tók hart á henni, hélt hendinni niðri og þegar hún ætlaði að rykkja sér frá þá gerist þetta,“ sagði Axel.

Hrafnhildur fer í myndatöku á morgun

Meiri óvissa er um meiðslin hjá Hrafnhildi Hönnu. Axel segir hana ekki vera mjög bólgna í dag, en ekki er hægt að segja neitt með vissu fyrr en hún hefur farið í myndatöku á morgun. Hún kom ekkert við sögu í leiknum í gær.

„Hún kom illa niður og hnéð kom of mikið inn. Hún kom vel út úr prófunum og slíku. En þar sem þetta eru æfingaleikir eru ekki teknir neinir sénsar með hana. Það er búið að panta tíma í myndatöku í fyrramálið,“ sagði landsliðsþjálfarinn Axel Stefánsson við mbl.is.

Rakel Dögg Bragadóttir fékk svo höfuðhögg á síðustu mínútu leiksins á föstudag, en hún var með í seinni leiknum í gær og skoraði eitt mark.

Sjá:

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í landsleik.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í landsleik. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert