„Ég þarf að hætta þessu væli“

Valsmaðurinn Vignir Stefánsson í færi í leiknum í kvöld.
Valsmaðurinn Vignir Stefánsson í færi í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

„Við urðum helvíti ragir sóknarlega og fórum að velja vitlaust. Þeir söxuðu á okkur og komust almennilega inn í leikinn,“ sagði Ólafur Ægir Ólafsson, leikmaður Vals, eftir 25:25-jafntefli Vals og Gróttu í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

Valsmenn komust mest átta mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 20:12, en eftir það hrökk allt í baklás hjá Hlíðarendapiltum. Seltirningar söxuðu á forskotið og tryggðu sér að lokum eitt stig.

„Við erum orðnir eitthvað smá stressaðir en það búið að ganga svolítið illa hjá okkur upp á síðkastið,“ sagði Ólafur en Valsarar hafa tapað fjórum leikjum og gert tvö jafntefli síðan þeir tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í lok febrúar.

Valsarar voru brjálaðir eftir lokasóknina en aðspurður sagðist Ólafur ekki vera viss um hvað gerðist. „Við fáum fríkast og þeir vaða út í Josip (Gric). Ég sá ekki hvað gerðist en það var talað um að þeir hefðu farið í andlitið á honum. Þetta var mjög svekkjandi,“ sagði Ólafur.

„Sjálfstraustið er ekki allt of mikið hjá okkur og seinustu leikir hafa verið helvítis basl. Vonandi gengur þetta betur í Serbíu,“ sagði Ólafur en Valsarar mæta serbneska liðinu Sloga Pozega í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu á laugardaginn.

„Persónulega vil ég fá aðeins meira sjálfstraust í minn leik. Ég er ekki búinn að geta skít síðan ég fékk höfuðhöggið á móti FH. Ég er ágætur í hausnum en ég þarf að gera meira,“ sagði Ólafur en hann fékk þungt högg á höfuðið í undanúrslitum bikarkeppninnar. 

Athygli vakti að Ólafur henti af sér höfuðpúða um miðjan fyrri hálfleik. „Ég henti honum af mér en hann á að veita mér öryggi. Ég þarf að hætta þessu væli og byrja að spila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert