Meistararnir efstir eftir Íslendingaslag

Ólafur Andrés Guðmundsson.
Ólafur Andrés Guðmundsson. AFP

Sænska meistaraliðið Kristianstad skaust í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld eftir öruggan heimasigur á Hammarby, 33:21, í Íslendingaslag.

Kristianstad hafði níu marka forskot í hálfleik, 17:8, og Hammarby náði aldrei að snúa blaðinu við eftir hlé. Ólafur Andrés Guðmundson skoraði 4 mörk fyrir Kristianstad, Gunnar Steinn Jónsson skoraði 2 en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað. Örn Ingi Bjarkason skoraði 2 mörk fyrir Hammarby.

Kristianstad er nú með 43 stig eftir 28 leiki og er með eins stigs forskot á Lugi. Hammarby er enn í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 13 stig, sjö stigum á eftir næsta liði þar fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert