Ágúst íhugar formannsframboð hjá HSÍ

Ágúst Jóhannsson.
Ágúst Jóhannsson. mbl.is/Golli

Ágúst Jóhannsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik og núverandi þjálfari karlaliðs KR, er að íhuga framboð til formanns Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, en ársþing sambandsins fer fram 22. apríl.

Ágúst staðfestir þetta við fimmeinn.is í kvöld og segir að upphaflega hafi hann aðeins verið að hugsa um að bjóða sig fram til stjórnar HSÍ. Nú stefni hann hins vegar lengra eftir að hafa verið hvattur til þess, en skila þarf framboði í síðasta lagi 1. apríl.

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi hjá mörgum aðilum og félögum sem hafa komið að máli við mig og því hef ég ákveðið að skoða þessi mál vel. Mér eins og svo mörgum er mjög annt um íslenskan handbolta sem hefur að mínu viti verið í mikilli varnarbaráttu í ansi langan tíma,“ sagði Ágúst.

Hann segist vilja sjá handboltann taka fótboltann sér til fyrirmyndar.

„Handboltinn á að vera mun framar hér heima og þarf að spyrna við fótunum innan hreyfingarinnar til að færa þessa frábæru íþrótt þangað sem hún á að vera. Ég vil sjá okkur nær fótboltanum,“ sagði Ágúst Jóhannsson meðal annars við fimmeinn.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert