Birna fékk grænt ljós og setti fimm

Birna Berg Haraldsdóttir í landsleik.
Birna Berg Haraldsdóttir í landsleik. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik, skoraði fimm mörk fyrir Glassverket sem vann dramatískan sigur á liði Sola, 29:28, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik.

Birna Berg fór úr axlarlið með íslenska landsliðinu á laugardag og sagði í samtali við Morgunblaðið að hún vonaðist til þess að fá grænt ljós frá læknum liðsins til þess að spila í það minnsta sókn. Lán í óláni var að hin örvhenta Birna fór úr lið á hægri öxl, og hrökk strax aftur í liðinn.

Glassverket styrkti stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum, er þar með 27 stig og stigi á eftir Vipers Kristiansand sem er sæti ofar. Larvik er á toppnum með 34 stig.

Eva Björk Davíðsdóttir skoraði ekki fyrir Sola, sem er í 7. sæti deildarinnar af 11 liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert