Geir var hetjan í dramatískum sigri

Geir Guðmundsson.
Geir Guðmundsson.

Eftir að hafa aðeins unnið einn leik af síðustu fimm krækti Cesson-Rennes í mikilvægan sigur í fallbaráttu frönsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld þar sem Geir Guðmundsson reyndist hetjan á ögurstundu.

Cesson-Rennes fékk Saran í heimsókn í gríðarlega spennandi leik. Saran var einu marki yfir í hálfleik 14:13, og jafnt var svo að segja á öllum tölum eftir hlé. En 19 sekúndum fyrir lok leiksins skoraði Geir sigurmark Cesson-Rennes, sem fór með eins marks sigur af hólmi 26:25.

Guðmundur Hólmar Helgason er frá út tímabilið vegna meiðsla, en Geir skoraði tvö mörk í leiknum. Cesson-Rennes er enn í þriðja neðsta sæti deildarinnar, nú með 13 stig. Stigi ofar er lið Dunkerque, sem einnig vann í kvöld, og mætast liðin í næstu umferð í gríðarlega mikilvægum slag.            

Nimes vann svo heimasigur á Créteil, 30:26, og styrkti stöðu sína um miðja deild. Nimes var fjórum mörkum yfir í hálfleik 14:10, en Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 4 mörk fyrir Nimes og Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 3. Liðið er með 16 stig í 8. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert