Pétur fór á kostum í lokaleiknum

Pétur Pálsson fyrir miðri mynd ásamt Páli Ólafssyni í meistaraflokksráði …
Pétur Pálsson fyrir miðri mynd ásamt Páli Ólafssyni í meistaraflokksráði Hauka t.v. og Þorgeiri Haraldssyni, formanni handknattleiksdeildar Hauka. Ljósmynd / Haukar

Lokaumferð norsku úrvalsdeildar karla í handknattleik fór fram í dag og voru þrjú Íslendingalið á ferðinni.

Pétur Pálsson fór á kostum fyrir Kolstad, sem vann útisigur á FyllingenBergen, 31:29. Pétur var markahæstur í liði Kolstad með 7 mörk, en Kolstad var tveimur mörkum yfir í hálfleik 14:12. Pétur er á heimleið eftir tímabilið og hefur þegar samið við Hauka.

Hin Íslendingaliðin máttu sætta sig við töp í lokaumferðini. Óskar Ólafsson skoraði ekki fyrir Drammen sem tapaði á heimavelli fyrir Falk Horten, 20:19, þar sem sigurmarkið kom fimm sekúndum fyrir leikslok.

Þá spilaði Einar Ingi Hrafnsson lokaleik sinn í deildinni fyrir Arendal, sem tapaði á heimavelli fyrir Haslum 25:18. Einar Ingi skoraði ekki, en hann er að öllum líkindum á heimleið eftir átta ár í atvinnumennsku.

Íslendingaliðin sigldu öll lygnan sjó í deildinni fyrir lokaumferðina. Arendal hafnaði í 4. sæti deildarinnar með 28 stig, Kolstad hafnaði í 7. sæti með 23 stig og Drammen í 8. sætinu með 15 stig. Þau fara því öll í úrslitakeppnina sem hefst þann 29. mars, þar sem spilað verður um Evrópusæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert