Þórir sæmdur konunglegri heiðursorðu

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari heims- og Evrópumeistara Noregs í handknattleik, var í gærkvöldi sæmdur norska riddarakrossinum við hátíðlega athöfn. Á norsku nefnist heiðursorðan Den Kongelige Norske Fortjenstorden.

Þórir fær heiðursorðuna vegna starfs hans í þágu Noregs, en norska kvennalandsliðið hefur verið sannkallað stórveldi í handknattleiksheiminum síðust ár undir stjórn Þóris.

Þórir fékk orðuna við hátíðlega athöfn í konungshöllinni í Osló, þar sem forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid eru nú í opinberri heimsókn.

Þórir fetar þar með í fótspor Guðmundar Guðmundssonar, fráfarandi landsliðsþjálfara Dana, sem var sæmdur riddarakrossi dönsku Dannebrogs-orðunnar, sem líkja má við hina íslensku fálkaorðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert