Alfreð ánægður þrátt fyrir tap

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Ljósmynd/eurohandball.com

Í fyrsta skipti í sex ár töpuðu lærisveinar Alfreðs Gíslasonar á heimavelli útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í gærkvöld þegar liðið tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen, 25:24, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum.

Kiel tapaði síðast á heimavelli í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar gegn Barcelona í aprílmánuði árið 2011 en Börsungar höfðu betur, 36:33, í leik liðanna í átta liða úrslitunum.

Tapið í gær var hins vegar fjórða tap Kiel á heimavelli í Meistaradeildinni á þessu tímabili en Alfreð var ánægður með frammistöðu sinna manna.

„Við sýndum góðan liðsandi og gáfumst aldrei upp og ég er stoltur af því. Löwen verðskuldaði sigurinn en við áttum skilið að tapa ekki leiknum nema með eins marks mun. Eftir mörg mistök sem við gerðum í byrjun seinni hálfleiks áttum við frábæra endurkomu,“ sagði Alfreð en Kiel vantaði sterka leikmenn í sitt lið en bæði Domagoj Duvnjak og Ren Toft voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert