Virkilega leiðinleg staða

Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik, segir ljóst að hún yfirgefi norska úrvalsdeildarliðið Glassverket eftir þetta keppnistímabil.

Stjórn félagsins tilkynnti leikmönnum fyrir helgina að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri félagsins í núverandi mynd. Það þýðir að félagið leysir alla leikmenn liðsins undan samningi um mitt þetta ár.

„Staðan fyrir næsta keppnistímabil er slæm. Tekjurnar munu rétt duga til þess að greiða ferðakostnað, búninga og þessháttar. Þar af leiðandi verða allir leikmenn leystir undan samningi eftir keppnistímabilið. Ég verð þess vegna að leita mér að öðru liði fyrir næsta keppnistímabil,“ sagði Birna Berg við Morgunblaðið. Fimmtán leikmenn Glassverket eru samningsbundnir fram á mitt næsta ár, þar á meðal Birna. Samningar þeirra allra eru í uppnámi.

Fréttir af slæmum fjárhag Glassverket bárust undir lok síðasta árs þegar uppvíst varð um fjárdrátt starfsmanns félagsins og að dregin hefði verið upp fegurri mynd af bókhaldi félagsins en ástæða var til. Eftir lífróður forsvarsmanna félagsins tókst að tryggja rekstur félagsins út keppnistímabilð. M.a. tóku leikmenn á sig helmings lækkun launa, þar á meðal Birna Berg. Hún segir að þá hafi verið rætt um að vonir stæðu til að eftir uppstokkun á fjárhagnum yrði hægt að standa við fyrri samninga frá og með næsta keppnistímabili. Nú er ljóst að sú verður ekki raunin.

„Þetta er virkilega leiðinleg staða,“ sagði Birna Berg sem gekk til liðs við Glassverket á síðasta sumri. Kærasti hennar er þjálfari yngri flokka félagsins.

Sjá allt viðtalið við Birnu Berg í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert