Allt öðruvísi andstæðingur

Josip Juiric Grgic og samherjar hans í Val verða í …
Josip Juiric Grgic og samherjar hans í Val verða í eldlínunni í Serbíu á morgun. Kristinn Magnússon

„Liðið er ekkert ósvipað að sjá og Partizan sem við lékum við í 16-liða úrslitum keppninnar. Leikmenn eru líkamlega sterkir, liðið leikur sex núll vörn og hefur á að skipa tveimur góðum markvörðum,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari bikarmeistara Vals í handknattleik karla, spurður um serbneska liðið Sloga Pozega en Valur mætir liðinu í 8-liða úrslitum Áskorendakeppni Evrópu í Pozega í Serbíu á morgun.

Um er að ræða fyrri viðureign liðanna en sú síðari verður í Valshöllinni á laugardaginn eftir viku. Valsmenn slógu út Partizan 1949 frá Svartfjallalandi í 16-liða úrslitum keppninnar og norska liðið Haslum í 32-liða úrslitum.

„Við verðum að búa okkur undir hægan leik með mörgum aukaköstum og þar af leiðandi talsvert öðruvísi leik en menn eru vanir úr deildinni hér heima. Það er bara gaman að fást við öðruvísi andstæðing en við erum vanir,“ sagði Óskar sem telur að lið sitt eigi ágæta möguleika á að ná hagstæðum úrslitum í Pozega á morgun þannig að úr verði spennandi viðureign á heimavelli eftir viku.

Óskar segir ljóst að lykilmenn liðs Sloga Pozega séu hægri handar skyttan, miðjumaðurinn og línumaðurinn en sá síðarnefndi er stór og mikill að burðum. „Boltinn fer mest í gegnum þessa þrjá leikmenn en auk þess hefur liðið á að skipa góðum hornamönnum. En með góðum leik eigum við góða möguleika.“

Sjá allt viðtalið við Óskar Bjarna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert