Fram færist nær titlinum en Fylkir féll

Íris Ásta Pétursdóttir í liði Vals sækir að Elvu Þóru …
Íris Ásta Pétursdóttir í liði Vals sækir að Elvu Þóru Arnardóttur í vörn Fram í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Framkonur stigu skrefi nær deildarmeistaratitlinum í Olísdeild kvenna í handknattleik í kvöld þegar þær unnu Val allörugglega á Hlíðarenda, 26:20.

Jafnræði var þó lengi vel og Fram var einu marki yfir í hálfleik, 12:11. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði 8 mörk fyrir Fram, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 5 og Steinunn Björnsdóttir 4.

Þær Diana Satkauskaite með 9 mörk og Kristín Guðmundsdóttir með 8 gerðu öll mörk Vals nema þrjú. Möguleikar Vals á að komast í fjögurra liða úrslitakeppnina eru orðnir frekar litlir.

Þá féll Fylkir úr Olísdeildinni í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Haukum á heimavelli, 25:30. Fylkir er fjórum stigum á eftir Selfyssingum og á tvo leiki eftir en Selfoss verður fyrir ofan, hvernig sem fer, vegna innbyrðis úrslita liðanna.

Haukar eru hins vegar í þriðja sæti og standa vel að vígi með að komast í úrslitakeppnina. Guðrún Erla Bjarnadóttir skoraði 10 mörk fyrir Hauka og Brynhildur Sól Eddudóttir 5 en Thea Imani Sturludóttir skoraði 8 mörk fyrir Fylki og Vera Pálsdóttir 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert