Oddur sneri aftur með stæl

Oddur Gretarsson hefur verið meiddur í mánuð.
Oddur Gretarsson hefur verið meiddur í mánuð. Ljósmynd/tvemsdetten.com

Oddur Gretarsson sneri aftur á handboltavöllinn í kvöld eftir mánaðarfjarveru vegna meiðsla og gerði sér lítið fyrir og var markahæstur þegar lið hans Emsdetten tapaði á útivelli fyrir Bad Schwartau, 23:22, í þýsku 2. deildinni.

Oddur tjáði mbl.is í dag að tvö liðbönd í ökkla hefðu slitnað og hafði hann vonast til þess að spila í kvöld. Það gekk eftir og skoraði hann sjö mörk, mest allra í liði sínu, en það dugði ekki til sigurs. Heimamenn skoruðu sigurmarkið um 40 sekúndum fyrir leikslok, 23:22.

Aron Rafn Eðvarðsson stóð í marki Bietigheim sem vann útisigur á Neuhausen 34:27 og þá skoraði Fannar Friðgeirsson 5 mörk fyrir Hamm-Westfalen sem tapaði heima fyrir Lübbecke, 28:26.

Hamm er í 17. sæti og fallsæti með 22 stig en Oddur og Emsdetten eru með stigi meira í 14. sætinu. Deildin er gríðarlega jöfn og munar aðeins þremur stigum á Hamm og liðinu sem er í 9. sæti. Aron Rafn og félagar hjá Bietigheim eru í þriðja sæti með 38 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert