Erum ánægðir með okkur

Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari Vals.
Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jú þakka þér fyrir, við erum bara nokkuð ánægðir með okkur. Auðvitað vill maður alltaf vinna stærra, en þriggja marka sigur á útivelli er alls ekki slæmt,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari meistaraflokks Vals í handknattleik, eftir 30:27 sigur á Sloga frá Serbíu í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu.

„Þetta er fyrri leikurinn og sá seinni er heima eftir viku og þó svo við séum með þriggja marka forskot þá er þetta alls ekki komið í höfn hjá okkur,“ sagði Guðlaugur og gaf lítið út á að Valur myndi líklegast mæta AHC Potaissa Turda frá Rúmeníu í undanúrslitum, en liðið mætir HB Dudalange frá Lúxemborg í tveimur leikjum í Rúmeníu um næstu helgi.

„Við ætlum okkur að klára þetta einvígi áður en við förum eitthvað að huga að því hvaða liði við mætum næst,“ sagði Guðlaugur, en Valur mætti Partizan frá Svartfjallalandi í 16 liða úrslitum, var að leika i Serbíu núna um helgina og ef liðið kemst áfram mætir það trúlega liði frá Rúmeníu í undanúrslitunum. Nóg að gera hjá Valsmönnum í austurhluta Evrópu og ef þetta gengur eftir halda þeir alltaf austar og austar.

Nánar er rætt við Guðlaug í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert