Gott að hafa Einar í vasanum hér heima við

Teitur Örn Einarsson.
Teitur Örn Einarsson. mbl.is/Golli

„Þetta var einfaldlega flottur leikur hjá okkur. Við gáfum allt sem við áttum og vorum einfaldlega betri en Stjörnumenn þegar upp var staðið,“ sagði Teitur Örn Einarsson, einn hinna ungu leikmanna Selfossliðsins í handknattleik sem vakið hafa verðskuldaða athygli á keppnistímabilinu.

Selfoss vann nauman en mikilvægan sigur á Stjörnunni í 25. umferð Olísdeildarinnar í TM-höllinni í Garðabæ á fimmtudaginn, 25:24. „Með þessum sigri tókst okkur að koma í veg fyrir að hafna í neðsta sæti deildarinnar þegar upp verður staðið, hvernig sem tveir síðustu leikirnir fara,“ sagði Teitur.

Með sigrinum færðist Selfossliðið upp í sjötta sæti með 22 stig og er aðeins einu stigi á eftir Val, sem er í sætinu fyrir ofan. Liðið mætast annað kvöld á Selfossi þegar 26. umferð deildarinnar verður leikin. „Nú erum við farnir að hugsa um næsta leik og hvort ekki sé möguleiki á að komast enn ofar í deildinni. Ef okkur tekst að vinna Val verðum við komnir í afar skemmtilega stöðu í deildinni áður en úrslitakeppnin hefst.“

Ekki er langt síðan Selfossliðið var á barmi þess að hafna í neðsta sæti en sigur á Akureyri í leik nyrðra 16. mars forðaði liðinu frá þeim örlögum. „Tveir sigurleikir gegn liðunum í kringum okkur, Akureyri og Stjörnunni, komu okkur í ágæta stöðu,“ sagði Teitur Örn.

Selfossliðið komst upp í úrvalsdeildina á síðasta vori eftir æsilegt kapphlaup við Fjölni í umspilsleikjum. Margir töldu að Selfoss myndi ekki staldra lengi við í deildinni en raunin hefur orðið önnur. Leikmenn liðsins eru flestallir aldir upp hjá félaginu, sem í gegnum tíðina hefur verið þekkt fyrir afar gott uppeldisstarf í handboltanum og eru uppaldir Selfyssingar að leika handbolta víða um Evrópu.

„Fyrsta, annað og þriðja markmið okkar fyrir keppnisímabilið var að halda sæti í deildinni – sýna að við ættum fullt erindi í keppni þeirra bestu. Við gáfum tóninn með því að vinna Aftureldingu og Val í tveimur fyrstu umferðum deildarinnar í haust. Þótt móti hafi blásið höfum við aldrei lagt árar í bát. Við ætlum að halda áætlunum okkar allt til loka deildarkeppninnar,“ sagði Teitur Örn.

Sjá allt viðtalið við Teit Örn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert