Akureyri náði dramatísku stigi í Eyjum

Sverre Jakobsson, spilandi þjálfari Akureyrar, fer fyrir sínum mönnum í …
Sverre Jakobsson, spilandi þjálfari Akureyrar, fer fyrir sínum mönnum í fagnaðarlátum í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Akureyri Handboltafélag gæti fallið úr Olís-deild karla í handknattleik síðar í kvöld verði önnur úrslit ekki Norðanmönnum í hag, en þetta var ljóst eftir dramatískt jafntefli liðsins við ÍBV, 22:22, í hörkuleik í Eyjum í næstsíðustu umferð deildarinnar í kvöld.

Akureyringar seldu sig dýrt í leiknum og komust meðal annars í 7:2, en ógnarsterkir Eyjamenn svöruðu með fimm mörkum í röð. Akureyringar brotnuðu þó ekki við það og voru þremur mörkum yfir í hálfleik 12:9.

Síðari hálfleikur var jafn og spennandi, en Eyjamenn sóttu jafnt og þétt að forskoti Akureyringa og komust yfir um miðjan hálfleikinn. Í stöðunni 22:21 og tæp mínúta eftir misstu Eyjamenn boltann. Akureyri fór í sókn og tók leikhlé þegar 5 sekúndur voru eftir.

Það skilaði sínu, og eftir fléttu úr aukakasti í blálokin skoraði Andri Snær Stefánsson dramatískt jöfnunarmark fyrir Akureyri, lokatölur 22:22.

Akureyri er þó enn neðst með 18 stig, en Stjarnan er sæti ofar með 19. Fari það svo að Stjarnan vinni gegn Gróttu síðar í kvöld mun Akureyri ekki eiga möguleika á að bjarga sér úr neðsta sætinu. Akureyri og Stjarnan eigast svo við í lokaumferðinni.

ÍBV er hins vegar á toppnum með 34 stig, en FH og Haukar koma þar á eftir með 33 stig og mætast einmitt í kvöld.

Sigurbergur Sveinsson sækir að vörn Akureyrar í leiknum í kvöld.
Sigurbergur Sveinsson sækir að vörn Akureyrar í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
ÍBV 22:22 Akureyri opna loka
60. mín. Nú stoppar Þorleifur því honum finnst einhver börn vera of nálægt honum hjá netinu. Hver á þessi börn eiginlega??
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert