Hreinn úrslitaleikur í síðustu umferðinni

Sverre Jakobsson, spilandi þjálfari Akureyrar, fer fyrir sínum mönnum í …
Sverre Jakobsson, spilandi þjálfari Akureyrar, fer fyrir sínum mönnum í fagnaðarlátum í Eyjum í kvöld en það stig hélt vonum liðsins á lífi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Akureyri handboltafélag á enn möguleika á að bjarga sér frá falli úr Olís-deild karla í handknattleik. Það var ljóst eftir að Stjarnan gerði jafntefli við Gróttu, 31:31, í næstsíðustu umferðinni í kvöld.

Akureyri gerði dramatískt jafntefli við ÍBV, 22:22, fyrr í kvöld en liðið mætir einmitt Stjörnunni í lokaumferðinni. Akureyringar þurftu hins vegar að treysta á það að Stjarnan myndi ekki vinna Gróttu, til þess að eiga séns á að halda sér uppi. Það gekk eftir.

Akureyri er þó enn á botninum með 18 stig en Stjarnan er sæti ofar með 20 stig. Stjarnan vann fyrsta leik liðanna í deildinni í vetur 26:23, en Akureyri vann annan leikinn 24:20 og er því með betri markatölu.

Áætlað er að fjölga liðum í efstu deild frá og með næsta tímabili og vegna þess mun væntanlega aðeins eitt lið falla úr deildinni. Það ræðst þó ekki endanlega fyrr en 9. maí þegar ljóst verður hve mörg félög skrá sig til leiks á næsta Íslandsmóti. Ef þau verða 20 eða fleiri verða 12 lið í úrvalsdeildinni. Liðin eru 22 í ár. Ef þeim fækkar í 19 verða áfram tíu lið í úrvalsdeild og þá fellur liðið í 9. sæti.

FH, ÍBV, Haukar, Afturelding, Selfoss, Valur og Grótta hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni. Áttunda liðið verður Fram eða Stjarnan. Um leið er ljóst að Fram, Stjarnan og Akureyri geta öll lent í 9. sætinu og þurft að bíða til 9. maí eftir endanlegum úrskurði um hvar þau leika að ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert