Lýsandi fyrir frammistöðu okkar

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er afar svekkjandi að fá ekki bæði stigin úr þessum leik, bæði í ljós þess hvernig aðrir leikir fóru og eins hvernig við lékum lengst af þessa leiks,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, daufur í bragði eftir jafntefli, 31:31, við Gróttu í Olís-deildinni í handknattleik karla í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld.

Eitt stig dugði Stjörnunni skammt til að kveðja falldrauginn sem vofir enn yfir en í lokaumferð deildarinnar á þriðjudagskvöldið mætir Stjarnan liði Akureyrar sem getur með sigri í þeim leik sent Stjörnumenn niður í 1.deild.

„Við vorum á köflum mjög góðir að þessu sinni en féllum niður á köflum eins og stundum áður á leiktíðinni gegn góðu liði Stjörnunnar,“ sagði Einar og andvarpaði áður en hann bætti við:  „Við vorum einnig heppnir að fá þó eitt stig í lokin eins og leikurinn spilaðist.“

Sveinbjörn Pétursson, markvörður Stjörnunnar, varði skot Elvars Friðrikssonar þegar ein sekúnda var til leiksloka auk þess sem Sverrir Eyjólfsson skoraði af harðfylgi jöfnunarmark Stjörnuliðsins þegar sex sekúndur voru eftir af leiktímanum.

Stjarnan náði mest fimm marka forskoti snemma í síðari hálfleik og aftur tveggja marka forskoti þegar skammt var til leiksloka en lék öllu út úr höndum sínum.  „Leikurinn var lýsandi fyrir frammistöðu okkar í nokkrum síðustu leikjum. Við náum löngum góðum köflum en síðan koma stuttir kaflar þar sem við dettum niður. Þá er andstæðingurinn fljótur að refsa okkur,“ sagði Einar en segir ýmsa kosti vera fyrir hendi áður lokaleikurinn við Akureyri hefst á þriðjudaginn. „Við erum annað þeirra liða sem getur fallið en við getum einnig komist inn í úrslitakeppnina með sigri og við stefnum að því að vinna á þriðjudaginn og fara í úrslitakeppnina,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert