Óheppnir að vinna ekki leikinn

Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, ræðir við leikmenn sína.
Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, ræðir við leikmenn sína. mbl.is/Styrmir Kári

„Eins og leikurinn  þróaðist þá vorum við óheppnir að vinna ekki. Hins vegar þá áttum við á brattann að sækja eftir miðbik fyrri hálfleiks og fram undir lok leiksins,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, eftir að Stjarnan náði jafntefli, 31:31, við lærisveina Gunnars í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. 

Grótta hafði þegar bjargað sér frá falli og víst er að liðið tekur þátt í úrslitakeppninni annað árið í röð en í hvaða sæti það lendir er enn óvíst.

Gunnar segir að varnarleikurinn í fyrri hálfleik hafi ekki verið eins og best var á kosið hjá sínu liði í kvöld. „Það kviknaði á mönnum í varnarleiknum í síðari hálfleik og við unnum vel fyrir stiginu. Hins vegar er það áhyggjuefni fyrir okkur að í síðustu þremur leikjum hefur varnarleikurinn verið slakur í fyrri hálfleik. Það er eitthvað sem við verðum að skoða gaumgæfilega áður en úrslitakeppnin hefst,“ sagði Gunnar.

„Ef við ætlum að gera eitthvað af viti í úrslitakeppninni þá verður varnarleikurinn að vera í lagi í 60 mínútur.“

Gunnar segir að síðasti leikur deildarkeppninnar verði við Fram. „Við verðum að vinna þann leik og sjá til í hvaða sæti sá sigur skilar okkar. Svo er aðalmálið að vera klár í slaginn í úrslitakeppninni,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert