„Réðst að dómurum með óbótaskömmum“

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Aganefnd HSÍ tók fyrir nokkur mál til úrskurðar á fundi sínum í vikunni. Eitt af þeim var málefni Einars Jónssonar þjálfara karlaliðs Stjörnunnar.

Á vef HSÍ kemur eftirfarandi fram:

„Einar Jónsson sem er þjálfari M.fl.ka. hjá Stjörnunni réðst að dómurum með óbótaskömmum eftir að leik Stjörnunnar U og KR í M.fl.ka. 24.03.2017 lauk. Sýndi hann þar af sér grófa óíþróttamannslega framkomu gagnvart dómurum. Þar sem Einar var ekki þátttakandi í leiknum og ekki á leikskýrslu var ekki unnt að beita útilokun og ekki hefur aganefnd heimild til pesónubundinna refsinga fyrir aðra en þátttakendur í leiknum.

Úrskurðurinn verður því í samræmi við V: kafla 17.gr. „Reglugerðar um agamál“ og er Stjörnunni gefinn kostur á að skila inn greinargerð. Málinu frestað til næsta fundar.“

Grein 17 sem vísað er til í reglugerð um agamál er svohljóðandi;

„Ef áhorfendur, þar með taldir forystumenn félaga, gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart leikmönnum, dómurum eða starfsmönnum leiks, er aganefnd heimilt að sekta viðkomandi félag þar sem leikurinn fer fram sem og gestaliðið í sérstökum tilvikum. Brot samkvæmt ákvæði þessu getur varðað sektum allt að kr.300.000.

Ef brot telst alvarlegt eða um ítrekað brot er að ræða skal aganefnd auk fjársektar heimilt að svipta lið heimaleikjum í tiltekinn tíma, þó að hámarki fjórum leikjum og mun þá heimaleikjarétturinn færast á það lið sem viðkomandi skal mæta. Allar tekjur vegna leiksins skulu falla til framkvæmdaraðila.

Viðkomandi félag skal greiða allan kostnað vegna leiksins, svo sem ferðakostnað, dómarakostnað og annan kostnað sem fellur til. Aganefnd skal leita umsagnar þeirra aðila sem hlut eiga að máli áður en hún úrskurðar um viðurlög samkvæmt þessu ákvæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert