Langþráður titill í höfn hjá FH (myndskeið)

FH-ingar gerðu það sem fáir aðrir en kannski þeir sjálfir reiknuðu með. Þeir stóðu uppi í gærkvöld sem deildarmeistarar í Olís-deild karla í handknattleik eftir sex marka sigur gegn Selfyssingum, 28:22, í Kaplakrika í lokaumferð deildarinnar.

Það braust út gríðarlegur fögnuður í Krikanum þegar úrslitin lágu ljós fyrir enda aldarfjórðungur liðinn frá því að Hafnarfjarðarliðið vann þennan titil síðast. FH vann þrefalt árið 1992, það vann deildarkeppnina og hampaði bæði Íslands- og bikarmeistaratitlinum.

Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn vann FH einmitt í frægu einvígi við Selfyssinga og stuðningsmenn liðsins eygja nú von um að liðið landi þeim stóra í vor en leiðin að honum er löng og ströng og í fyrstu hindrun glíma FH-ingarnir við Gróttumenn í átta liða úrslitunum.

Fyrir tímabilið var því spáð að FH myndi lenda í fimmta sæti deildarinnar en undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar og hans hundtrygga aðstoðarmanns, Árna Stefáns Guðjónssonar, hefur liðið sýnt mikla seiglu sem skilaði að lokum langþráðum deildarmeistaratitli.

Nánar er fjallað um lokaumferðina í Olís-deild karla í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

FH-ingar tóku við bikarnum í leikslok í Kaplakrika í gærkvöldi.
FH-ingar tóku við bikarnum í leikslok í Kaplakrika í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert