Bið eftir úrslitakeppninni síðasta mánuðinn

Ernir Hrafn Arnarson.
Ernir Hrafn Arnarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ernir Hrafn Arnarson segist hafa trú á því að leikur Aftureldingar muni smella saman á réttum tíma en liðið mætir Selfossi í 8-liða úrslitum Olís-deildarinnar í handbolta í kvöld.

„Maður er eiginlega búinn að bíða eftir úrslitakeppninni í mánuð og skemmtilegt að þetta sé að byrja. Við þurfum að fara vel yfir andstæðinginn enda töpuðum við fyrir þeim fyrir áramót og þurfum að skoða þann leik vel. Við unnum þá hins vegar á Selfossi um daginn og ég held að þetta verði hörkuskemmtilegt.“

Ernir segist ekki vera stressaður yfir því að Aftureldingarliðið hafi hökt eftir áramót en gerir sér um leið grein fyrir því að leikur liðsins hefur ekki verið nægilega góður. 

„Við höfum auðvitað verið í vandræðum að undanförnu en áætlanirnar gengu upp fyrir áramót. Breytingar urðu í janúar og eftir það misstum við menn vegna meiðsla. Við höfum lagt hart að okkur til þess að finna taktinn og bíðum eftir því að það smelli saman. Ég hef trú á því að það gerist núna undir pressu,“ sagði Ernir í samtali við mbl.is á blaðamannafundi á fimmtudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert