Einar býr sig undir hátíð á Selfossi

Ernir Hrafn Arnarson skorar eitt sjö marka sinna í kvöld.
Ernir Hrafn Arnarson skorar eitt sjö marka sinna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum að undirbúa okkur fyrir annað stríð á Selfossi. Þeir verða þá á heimavelli í fyrsta skipti í úrslitakeppni síðan 1996 að mér skilst. Þar verður örugglega hátíð,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, þegar mbl.is spjallaði við hann að loknum sigurleiknum gegn Selfossi í kvöld.  

Selfoss var yfir 9:8 að loknum fyrri hálfleik en Aftureldingu tókst að valta yfir Selfoss á síðasta korteri leiksins og sigra 31:17. „Lokakaflinn gæti gefið sjálfstraust upp á framhaldið að gera en einnig getur það verið hættulegt ef menn halda að þeir séu betri en þeir eru. Við þurfum að horfa á fyrri hálfleikinn. Hann var gríðarlega erfiður,“ sagði Einar. 

Sókn Aftureldingar gekk erfiðlega gegn framliggjandi vörn Selfoss í fyrri hálfleik. Einar leysti það með því að hefja síðari hálfleikinn með sjö menn í sókn. Heppnaðist það svo gott sem fullkomlega. Réði útspilið úrslitum? „Það hafði alla vega mikil áhrif á leikinn því við skoruðum nánast í hverri sókn í seinni hálfleik. Fengum þá góð færi, vorum agaðir og létum boltann vinna. Ég myndi segja að þetta hafi haft mjög stór áhrif á úrslit leiksins,“ sagði Einar Andri Einarsson við mbl.is. 

Einar Andri Einarsson
Einar Andri Einarsson mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert