Stórsigur hjá Aftureldingu

Mikk Pinnonen stekkur upp í Mosfellsbænum í kvöld.
Mikk Pinnonen stekkur upp í Mosfellsbænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afturelding vann Selfoss 31:17 í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Afturelding er þar af leiðandi 1:0 yfir í rimmu liðanna en vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit. 

Afturelding hafnaði í fjórða sæti Olísdeildar karla í vetur en Selfoss í fimmta sæti. Að loknum fyrri hálfleik var útlit fyrir að leikurinn gæti orðið spennandi allt til loka. Selfoss hafði þá eins marks forskot 9:8. Leikurinn hafði farið mjög rólega af stað hvað sóknarleik varðar og var Selfoss yfir 4:2 þegar korter var liðið af leiknum. 

Í síðari hálfleik gerbreyttist allt. Lið Afturelding fann taktinn og náði fljótlega nokkurra marka forskoti. Einar Andri freistaði þess þá að hressa upp á sóknina með því að spila með sjö menn í sókn og virkaði það fullkomlega á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Þegar korter var eftir var forskot Aftureldingar þó ekki nema þrjú mörk en á lokaflanum var eins og Selfyssingar misstu sjálfstraustið endanlega og Mosfellingar völtuðu yfir þá á lokaflanum. 

Framliggjandi vörn Selfoss gekk afskaplega vel í fyrri hálfleik og þá var Afturelding í vandræðum. Í sókninni hjá Selfossi var Elvar Örn Jónsson mjög drjúgur og skaut skynsamlega á markið. Teitur Örn Einarsson var einnig áræðinn. Mosfellingar náðu betri tökum á hlutunum í seinni hálfleik bæði í vörn og sókn. Þeir sköpuðu sér dauðafæri hvað eftir annað í sókninni og í vörninni gekk mun betur að loka á Elvar. 

Svo er spurning um hversu mikið á að lesa í lokaflann þar sem Selfyssingar lögðu nánast niður vopnin og Mosfellingar skoruðu mörg mörk úr hraðaupplaupum. Þá fór munurinn úr átta mörkum og upp í fjórtán. 

Einar Hrafn Arnarson var markahæstur með 7/2 mörk og Árni Bragi Eyjólfsson gerði 6/2. Hjá Selfossi skoraði Elvar Örn Jónsson 7 mörk og þeir Teitur Örn Einarsson og Einar Sverrisson gerðu 4 mörk hvor. 

Afturelding 31:17 Selfoss opna loka
60. mín. Afturelding tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert