„Skemmtilegra en að skjóta á markið“

Tjörvi Þorgeirsson var Frömurum erfiður í kvöld.
Tjörvi Þorgeirsson var Frömurum erfiður í kvöld. mbl.is/Golli

Tjörvi Þorgeirsson dældi sendingum inn á línumenn Hauka í 28:24 sigri Íslandsmeistaranna gegn Fram í kvöld. Staðan í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum er nú jöfn 1:1.

Fram spilaði framliggjandi vörn og gekk ágætlega að halda aftur af skyttum Hauka. Tjörvi nýtti hins vegar tækifærið þegar losnaði um Jón Þorbjörn og Heimi Óla og þjónustaði þá með sendingum. 

„Mér finnst mun skemmtilegra að gera það en að skjóta á markið. Það getur stundum verið veisla fyrir mig þegar andstæðingarnir koma svona út á móti. Nonni og Heimir eru tveir metrar og þá getur maður fleygt boltanum svolítið upp upp í loft eins og ég vill. Okkur tókst að nýta þetta vel í dag. Ég sá Heimi og Nonna vel í dag og það virkaði,“ sagði Tjörvi þegar mbl.is ræddi við hann í Safamýri í kvöld. Hann sagði Hafnfirðinga hafa rætt saman eftir tapleikinn á Ásvöllum og frammistaðan þá hafi einfaldlega verið léleg hjá Haukum. 

„Við vissum að við áttum nóg inni og þetta var bara allt annað en í síðasta leik. Við áttum að klára dæmið fyrr í kvöld því vörnin var góð en nýttum færin ekki nógu vel í sókninni. Framararnir eru bara góðir og við þurfum að spila 100% til að vinna. Við töluðum bara saman eftir tapleikinn og vorum ekki með neinar afsakanir. Við vorum bara lélegir og baráttan var alltof lítil. Mér fannst mesta breytingin á milli leikja vera meiri barátta og meiri karakter,“ sagði Tjörvi Þorgeirsson.

Eigum að geta stoppað línuspilið

Markvörðurinn ungi, Viktor Gísli Hallgrímsson, sagði að Framarar eigi að geta stöðvað línuspil Hauka sem gekk svo vel hjá meisturunum í kvöld en Jón og Heimir skoruðu samtals 10 mörk. „Í kvöld áttu þeir mjög margar línusendingar og það er miklu erfiðara að fá það á sig en skot frá skyttunum. Það var of mikið af þessu í kvöld. Við eigum að geta stoppað þetta. Það þurfti bara smá skipulagsbreytingar sem menn fóru ekki alveg eftir,“ sagði Viktor sem varði 9 skot í kvöld og stóð sig vel í fyrri hálfleik. 

„Mér fannst vanta stemningu hjá okkur í kvöld og okkur tókst ekki alveg að ná upp spilinu okkar. Þar vantaði betra flæði og meira sjálfstraust. Það var eitthvað sem vantaði hjá okkur í kvöld miðað við fyrsta leikinn,“ sagði Viktor. 

Viktor Gísli Hallgrímsson reynir að loka á Elías Má Halldórsson …
Viktor Gísli Hallgrímsson reynir að loka á Elías Má Halldórsson í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert