„Þetta er ákveðið ævintýri“

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. AFP

„Ég hef ákveðið að taka þetta verkefni að mér og ég er bara mjög spenntur fyrir því. Þetta er ákveðið ævintýri sem ég er fara út í,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson í samtali við mbl.is í dag en hann verður kynntur til leiks á næstu dögum sem nýr landsliðsþjálfari Bahrein í handbolta.

Guðmundur gerir stuttan samning til að byrja með eða til sjö mánaða.

„Ég vildi gera stuttan samning til að byrja með, klára ákveðið verkefni og sjá til hvernig mér líkar. Við komum hingað í gær fjölskyldan og höfum verið að skoða aðstæður,“ sagði Guðmundur, sem nýlega lét af störfum sem þjálfari danska landsliðsins sem hann gerði að ólympíumeisturum í Ríó á síðasta ári.

„Það er allt opið hvað varðar framhaldið og þetta snýst bara um það hvað ég vil ég gera. Það er eins og að vera komin í aðra veröld að vera hér í Bahrein. Fólkið hér er mjög vingjarnlegt en það má segja að Bahrein er vestrænasta ríkið á þessu svæði. Ég mun hefja störf í kringum 20. ágúst og fyrsta verkefnið verða bara æfingar með liðið. Ég verð með liðið við æfingar í þrjár vikur og svo eitthvað í nóvember og svo verð ég með liðið í einni samfellu frá desember fram yfir Asíuleikana sem verða í janúar.

Það má segja að þetta sé líkara því að þjálfa félagslið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að lið Bahrein er ekki það sterkasta í heimi en ég sé ákveðna möguleika á því að bæta liðið. Hér er vilji til þess að gera það og mér finnst þetta bara mjög spennandi verkefni og spennandi staður sem ég er kominn á,“ sagði Guðmundur Þórður.

Þriðja landsliðið sem hann þjálfar

Bahrein verður þriðja landsliðið sem Guðmundur tekur að sér að þjálfa. Hann stýrði íslenska landsliðinu fyrst frá 2001 til 2004 og aftur 2008 til 2012. Undir hans stjórn unnu Íslendingar til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki 2010.

Guðmundur tók svo við þjálfun danska landsliðsins og var við stjórnvölinn hjá Dönum frá 2014 til 2017. Þá hefur hann þjálfað Víking, Aftureldingu og Fram ásamt þýsku liðin Dormagen og Rhein-Neckar Löwen og danska liðið GOG.

Fyrrum lærisveinar Guðmundar í danska landsliðinu mættu Bahrein í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Frakklandi í janúar þar sem Danir höfðu betur, 30:26, en Bahrein tapaði öllum leikjum sínum í riðlakeppninni og endaði í 23. sæti á HM eftir sigur á Angóla í keppninni um Forsetabikarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert