Arnór markahæstur þriðja leikinn í röð

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. AFP

Þriðja leikinn í röð var Arnór Þór Gunnarsson markahæstur í liði Bergischer í þýsku 1. deildinni í handknattleik, en það dugði ekki til í kvöld því liðið tapaði á útivelli fyrir Flensburg, 32:25, sem komst um leið á toppinn.

Bergischer hafði unnið tvo leiki í röð fyrir þennan leik og hafði Arnór skorað 9 mörk í þeim báðum og í kvöld var hann markahæstur með 8 mörk. Hann hefur því samtals skorað 26 mörk í síðustu þremur leikjum Bergischer, sem hangir stigi fyrir ofan fallsæti. Björgvin Páll Gústavsson ver mark liðsins.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel fóru svo illa að ráði sínu og gerðu aðeins jafntefli á heimavelli við Minden, 23:23. Kiel er í þriðja sætinu með 43 stig, tveimur á eftir toppliði Flensburg.

Füchse Berlín er svo stigi á eftir með 42 stig eftir jafntefli á útivelli gegn Melsungen í kvöld, 28:28.. Bjarki Már Elísson var næstmarkahæstur hjá Füchse með 5 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert