Birna Berg fór á kostum

Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birna Berg Haraldsdóttir fór á kostum með liði sínu Glassverket í fyrsta leik liðsins við Storhamar í 8-liða úrslitum um norska meistaratitilinn í handknattleik. Birna skoraði níu mörk en það dugði ekki til því Glassverket tapaði leiknum 28:26.

Öllu betur gekk hins vegar hjá Þóreyju Rósu Stefánsdóttur og liði hennar Vipers Kristiansand, því liðið vann sex marka útisigur á Sola, 27:21, í fyrstu viðureign þeirra. Þórey skoraði tvö mörk fyrir Vipers í leiknum en Eva Laufey Davíðsdóttir komst ekki á blað hjá Sola. Um er að ræða tvo leiki og betri samanlagður árangur sem gildir til þess að komast í undanúrslit.

Karlamegin stóð svo Einar Ingi Hrafnsson, unnusti Þóreyjar Rósu, í ströngu í fyrstu viðureign undanúrslita þegar lið hans Arendal vann háspennusigur á Bodø, 24:23. Tvær framlengingar þurfti til að knýja fram sigurvegara, en Einar skoraði eitt marka Arendal í leiknum.

Pétur Pálsson skoraði svo tvö mörk fyrir Kolstad sem tapaði í öðrum spennuleik, 27:26, á útivelli fyrir Elverum. Karlamegin þarf að vinna tvo leiki til þess að komast í úrslitaeinvígið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert