Hefur vantað hjá mér að skjóta á markið

FH-ingurinn ungi Gísli Þorgeir Kristjánsson.
FH-ingurinn ungi Gísli Þorgeir Kristjánsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hinn ungi og stórefnilegi Gísli Þorgeir Kristjánsson átti stórleik fyrir FH-inga í sigrinum gegn Aftureldingu, 28:27, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Gísli Þorgeir hóf leikinn á bekknum en þegar hlutirnir gengu ekki sem skyldi í sókninni kom Gísli inn á og óhætt er að segja að hann valdið hlutverki sínu. Stráknum héldu engin bönd en hann skoraði alls sjö mörk í leiknum og átti fjölda stoðsendinga og átti stóran þátt í að tryggja sínum mönnum sigurinn.

„Ég er fyrst og fremst ánægður að hafa náð að vinna leikinn. Þetta stóð tæpt undir lokin en fyrir mér fannst mér þetta vera réttur ruðningsdómur,“ sagði Gísli Þorgeir við mbl.is eftir leikinn.

„Mér fannst við hafa góð tök á leiknum í fyrri hálfleik og vorum fjórum mörkum yfir en misstum aðeins taktinn undir lok hálfleiksins með því að taka rangar ákvarðanir og í byrjun þess síðari. Við náðum svo aftur yfirhöndinni en þetta var barátta út í gegn,“ sagði Gísli.

Spurður um eigin frammistöðu í leiknum í kvöld sagði Gísli Þorgeir:

„Ég fékk bara þau skilaboð að vera ákveðinn. Það hefur svolítið vantað hjá mér að skjóta á markið en ég gerði það í kvöld og það gekk bara vel og verður vonandi þannig áfram. Þessi frammistaða gefur mér gott sjálfstraust en aðalmálið var samt að vinna og komast yfir í þessu einvígi,“ sagði Gísli Þorgeir, sem hefur hæfileikana ekki langt að sækja en faðir hans er Kristján Arason sem á árum áður var einn af bestu handboltamönnum þjóðarinnar. Móðir hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegisráðherra, var einnig liðtæk handboltakona og lék með ÍR-ingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert