„Setjum pressu á okkur sjálfa“

Unnur Ómarsdóttir hornamaður Gróttu komið í marktækifæri gegn Stjörnunni án …
Unnur Ómarsdóttir hornamaður Gróttu komið í marktækifæri gegn Stjörnunni án þess að Sólveig Lára Kjærnested fái vörnum við komið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Titilvörn Gróttu í Olís-deild kvenna í handknattleik hefst á morgun en þá mætir liðið deildarmeisturum Stjörnunnar í fyrsta leiknum í undanúrslitunum.

„Okkar lið er vel stemmt fyrir þetta einvígi. Leikir okkar við Stjörnuna hafa oftast verið jafnir og spennandi og ég tel vel mögulegt fyrir okkur að slá Stjörnuna út. Við höfum mætt Stjörnunni fjórum sinnum í vetur þar sem við höfum unnið tvo leiki og Stjarnan tvo,“ sagði vinstri hornamaðurinn Unnur Ómarsdóttir leikmaður Gróttu í samtali við mbl.is en hún var í gær valinn í úrvalslið Olís-deildarinnar sem valið var af þjálfurum deildarinnar.

„Ég hef fulla trú á því að þetta verði skemmtileg rimma. Það leynir sé ekki að Stjarnan er með mestu breiddina en við erum með gott byrjunarlið sem hefur alla burði til að standa í sterku liði Stjörnunnar og getur slegið það út. Úrslitakeppnin er allt annað mót en deildarkeppnin. Í fyrra vorum við ekki að spila neitt sérstaklega vel í deildarkeppninni en síðan small þetta saman hjá okkur í úrslitakeppninni. Vonandi gerist það bara aftur,“ sagði Unnur en Grótta hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum tvö undanfarin ár og í bæði skiptin eftir að hafa lagt Stjörnuna að velli í úrslitaeinvígi.

„Við þekkjum þá tilfinningu að vinna Íslandmeistaratitilinn og viljum gjarnan upplifa það aftur. Úrslitakeppnin er skemmtileg. Fólk fjölmennir á völlinn og það eru margir sem bíða eftir úrslitakeppninni. Ég hugsa að pressan sé aðeins minni á okkur þar sem Stjarnan er bæði bikarmeistari og deildarmeistari  en við leikmennirnir setjum pressu á okkur sjálfa. Við viljum svo mikið fara alla leið og það verður bara gott að hefja einvígið í Garðabænum. Okkur líður vel þar,“ sagði Unnur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert