Stefán látinn fara – „Þeir vilja stærra nafn“

Stefán Árnason.
Stefán Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta kom mjög flatt upp á mig,“ sagði Stefán Árnason í samtali við mbl.is í kvöld, en honum hefur verið tilkynnt af stjórn Selfoss að ekki sé lengur óskað eftir kröftum hans sem þjálfara karlaliðs félagsins í handknattleik.

„Ég var kallaður á fund þar sem stjórnin tilkynnti mér að það ætti að skoða hvort hægt væri að finna stærra nafn til þess að þjálfa liðið. Ég hélt bara að ætti að ræða næsta vetur og skoða stefnuna og slíkt, en þá var mér tilkynnt þetta,“ sagði Stefán, sem var að ljúka tveggja ára samningi við Selfoss.

Sem fyrr segir kom ákvörðunin honum mjög á óvart. Stefán var að ljúka sínu öðru tímabili sem þjálfari Selfoss, en hann stýrði liðinu upp í efstu deild síðasta vor og svo í 5. sæti Olís-deildarinnar í vetur. Í átta liða úrslitum féll Selfoss svo úr leik fyrir Aftureldingu.

„Mér finnst ég hafa unnið fyrir því að halda áfram með liðið og mér finnst við á hárréttri leið. En þeir verða að stjórna þessu eins og þeir vilja. Það á að skoða hvort það sé stærra nafn í boði, en þeir ætluðu svo í rauninni að heyra aftur í mér,“ segir Stefán.

Spurður um þau tilteknu vinnubrögð vildi Stefán sem minnst segja, en er hann tilbúinn í að fara aftur í viðræður við félagið síðar ef enginn annar finnst í hans stað?

„Það verður bara að koma í ljós, við skulum sjá hvað gerist fyrst áður en eitthvað annað verður skoðað,“ sagði Stefán Árnason við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert