Vissum út í hvað við vorum að fara

Valsmaðurinn Anton Rúnarsson sækir að Sigurði Erni Þorsteinssyni og Arnari …
Valsmaðurinn Anton Rúnarsson sækir að Sigurði Erni Þorsteinssyni og Arnari Birki Hálfdánssyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við byrjuðum af krafti því við vissum vel hvað við værum að fara út í,“ sagði Vignir Stefánsson, markahæsti leikmaður Vals með 10 mörk þegar liðið vann Fram, 31:23, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Framhúsinu í kvöld.

„Varnarleikurinn var góður frá upphafi. Þannig náðum við frumkvæðinu sem okkur tókst að halda lengst af leiksins. Það kom stuttur kafli undir lok fyrri hálfleiks þar sem við slökuðum aðeins á og þá mættu Framarar okkur um leið og náðu að saxa forystu okkar niður í tvö mörk. Það má bara aldrei slaka á gegn Fram vegna þess að leikmenn liðsins gefast aldrei upp. Þeir eru hættulegir. Það má aldrei gleyma sér gegn þeim,“ sagði Vignir sem skoraði 10 mörk, þar af sjö mörk á stuttum kafla í fyrri hálfleik.

„Eigum við ekki að segja að mér líki mjög vel við boltann?“ sagði Vignir Stefánsson, leikmaður Vals, sem nú getur snúið sér að undirbúningi fyrir undanúrslitaleik í Áskorendakeppni Evrópu við rúmenska liðið Potaissa Turda sem fram fer í Valshöllinni á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert