Eru bara sjö leikmenn á vellinum í hvoru liði

Stjörnukonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir sækir að vörn Gróttu.
Stjörnukonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir sækir að vörn Gróttu. mbl.is/Golli

Eftir 12 daga hlé frá keppni verður í dag flautað til leiks í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna í handknattleik.

Klukkan 14 mætast í Framhúsinu Fram og Haukar, liðin sem höfnuðu í öðru og þriðja sæti deildarinnar, og tveimur stundum síðar leiða deildarmeistarar Stjörnunnar og Íslandsmeistarar Gróttu saman hesta sína í í Garðabæ.

„Um áramótin var staða okkar í deildinni þannig að það var frekar draumur en veruleiki að við gætum náð inn í úrslitakeppnina. Við sóttum í okkur veðrið og tókst að láta drauminn rætast,“ sagði Laufey Ásta Guðmundsdóttir, einn leikreyndasti leikmaður Gróttu, spurð hvort sú góða sigling sem verið hefur á Gróttuliðinu síðustu vikur, og færði því sæti í úrslitakeppninni, gæfi liðinu ekki byr í seglin fyrir úrslitakeppnina.

„Skoðanir manna á einvígi okkar við Stjörnuna eru flestar í þá átt að Stjarnan sé mikið sterkari. Ég held því hinsvegar fram að rimman verði jöfn. Við eigum möguleika á að koma á óvart og til þess verður meðal annars trúin á verkefnið að vera fyrir hendi innan hóps. Við þekkjum vel til úrslitaleikja af reynslu tveggja síðustu ára. Okkur líður vel í úrslitaleikjum, erum hvergi bangnar,“ sagði Laufey Ásta.

Liðin eiga að baki fjórar viðureignir í vetur og hefur hvort lið tvo vinninga. Grótta vann í framlengdum háspennuleik þegar liðin mættust í meistarakeppni HSÍ í september, 32:31. Stjarnan svaraði fyrir sig með 29:26 á heimavelli snemma móts og eins marks sigri í Hertz-höllinni á Nesinu, 21:20, rétt eftir miðjan nóvember. Grótta gerði sér svo lítið fyrir og vann Stjörnuna með fjögurra marka mun, 28:24, á heimavelli í byrjun mars.

Sjá alla umfjöllunina um undanúrslitin í Olís-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert