Grótta vann í vítakeppni

Lovísa Thompson sækir að marki Stjörnunnar í dag en Sólveig …
Lovísa Thompson sækir að marki Stjörnunnar í dag en Sólveig Lára Ragnarsdóttir fylgist með. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grótta er komin í 1:0 gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir ævintýralegan leik í Garðabæ í dag. Eftir tvær framlengingar var gripið til vítakeppni þar sem Grótta skoraði úr fjórum vítum en Stjarnan úr tveimur af fjórum vítum sínum, og niðurstaðan var því 35:33-sigur Gróttu.

Fyrri hálfleikur venulegs leiktíma var hnífjafn, eins og reyndar allur leikurinn. Liðin skiptust á að hafa forystuna en forskotið var aldrei meira en tvö mörk og staðan í hléi var jöfn, 13:13. Helena Rut Örvarsdóttir átti hreint ótrúlegan fyrri hálfleik en hún skoraði níu mörk utan af velli og klikkaði varla á skoti.

Helenu gekk ekki eins vel að skora í seinni hálfleiknum og þegar leið á hann náði Grótta frumkvæðinu, en ekki meira en 1-2 marka forskoti. Sunna María Einarsdóttir fékk tækifæri til að auka muninn í þrjú mörk en þrumaði í stöng, í stöðunni 22:20.

Brynhildur Kjartansdóttir átti þá stórkostlega innkomu fyrir Stjörnuna og skoraði sex mörk í röð, með skömmu millibili. Hún jafnaði metin meðal annars í 24:24 þegar fimm mínútur lifðu leiks og spennan var mikil á lokamínútum venjulegs leiktíma. Eftir að Brynhildur jafnaði metin í 26:26 fékk hvort lið tvær sóknir til að skora sigurmarkið, og átti Helena meðal annars skot í stöng, en leiktíminn rann út og við tók framlenging. Brynhildur meiddist undir lok venjulegs leiktíma og gat ekki beitt sér frekar.

Staðan var enn jöfn, 28:28, eftir framlenginguna og því þurfti að grípa til annarrar framlengingar. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var reyndar nálægt því að tryggja Gróttu sigur í fyrri framlengingunni, með góðu skoti úr aukakasti, en Hafdís Renötudóttir varði vel.

Seinni framlengingin var ekki síður spennandi. Helena virtist hafa tryggt Stjörnunni sigur með sínu fimmtánda marki, þegar aðeins um 10 sekúndur voru eftir. Gróttukonur þutu fram og Laufey Ásta Guðmundsdóttir skoraði ótrúlegt jöfnunarmark úr afskaplega erfiðu færi, 31:31. Því tók við vítakeppni.

Í vítakeppninni skoruðu bæði lið úr fyrstu tveimur vítum sínum. Þórey Anna og Stefanía Theodórsdóttir klúðruðu svo sínum vítum og Selma Þóra Jóhannsdóttir varði víti Helenar. Það var svo Lovísa Thompson sem tryggði Gróttu sigurinn með síðasta vítinu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stjarnan 33:35 Grótta opna loka
80. mín. Grótta tapar boltanum Misheppnuð línusending. Enn hálf mínúta eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert