Önnur rimman jafnari en hin

Steinunn Björnsdóttir línumaður Fram að skora gegn Haukum.
Steinunn Björnsdóttir línumaður Fram að skora gegn Haukum. mbl.is/Golli

„Ég er viss um að leikir Stjörnunnar og Gróttu verða spennandi en reikna ekki með eins miklu af leikjum Fram og Hauka einfaldlega þar sem ég hef ekki mikla trú á Haukaliðinu um þessar mundir. Þótt Haukar hafi burstað okkur í Val í deildarkeppninni þá finnst mér eitthvað vanta hjá Haukum. Það er eins og liðið sé ekki í nógu góðu formi,“ sagði hin þrautreynda handknattleikskona Kristín Guðmundsdóttir úr Val, spurð um undanúrslitaleikina á Íslandsmótinu í handknattleik kvenna sem hefjast í dag.

Annarsvegar eigast við deildarmeistarar Hauka og ríkjandi Íslandsmeistarar tveggja síðustu ára, Grótta, og hinsvegar lið Fram og Hauka. Síðarnefndi leikurinn hefst klukkan 14 í Framhúsinu en leikur Stjörnunnar og Gróttu tveimur stundum síðar á heimavelli Stjörnunnar í Garðabæ. Vinna þarf þrjá leiki í hvorri rimmu til þess að tryggja sér keppnisrétt í úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn. Stjarnan varð deildarmeistari á dögunum eftir æsilegt kapphlaup við Fram allt til síðasta leiks.

Fram-liðið er í betra formi

„Viðureign Stjörnunnar og Gróttu fer vafalaust í fimm leiki en Fram vinnur Hauka í þremur leikjum en tapar einum. Fram-liðið er í betra formi, leikur of hratt til þess að Haukarnir geti fylgt þeim eftir,“ sagði Kristín og heldur áfram.

„Annars stendur Hauka-liðið og fellur með Ramune Pekarskyte, í hvernig líkamlegu ástandi hún er og hvort hún getur skotið og skorað hvenær sem er.

Ég held að Framarar hafi meiri breidd í sínum leikmannahópi en Haukar. Fram hefur þar af leiðandi fleiri kosti upp á að bjóða í leik sínum og að sama skapi þarf að stöðva færri leikmenn í Hauka-liðinu til þess að vinna það,“ sagði Kristín sem tekur ekki þátt í úrslitakeppninni þetta árið þar sem lið hennar öðlaðist ekki þátttökurétt í keppninni.

Grótta hefur meðbyr

Kristín telur að rimma Stjörnunnar og Gróttu verði jafnari. Gróttu-liðið hefur verið á talsverðri siglingu undanfarnar vikur. „Gróttu-liðið er í meðbyr en engu að síður eru þær í nokkru skjóli og eru fyrir vikið taldar vera litla liðið. Breiddin er sögð meiri en hjá Stjörnunni þótt breytingarnar á Gróttuliðinu frá síðasta ári séu minni en oft hefur verið látið í veðri vaka. Athyglin hefur ekki verið mikil á Gróttu þótt liðið hafi sótt mjög í sig veðrið á síðustu vikum og mánuðum. Meira hefur verið rætt um Stjörnuna og Fram sem voru langefstu liðin í deildarkeppninni. Staða Gróttu utan sviðsljósanna er góð,“ segir Kristín og bendir á að leikir liðanna hafi verið jafnir á þessu keppnistímabili.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert