Bjargvætturinn Laufey

Frá viðureign Stjörnunnar og Gróttu í gær.
Frá viðureign Stjörnunnar og Gróttu í gær. mbl.isKristinn Magnúsosn

Undanúrslitaeinvígi Stjörnunnar og Gróttu, á Íslandsmóti kvenna í handbolta, hófst með miklum látum í Garðabæ í gær.

Flestir, ef ekki allir, leikmenn liðanna fengu í fyrsta sinn að kynnast því að fara í vítakeppni í alvöruleik, eftir tvær framlengingar, og hún endaði með því að Grótta vann sigur. Liðin mætast að nýju á Seltjarnarnesi á sunnudag en stuðningsmenn liðanna mega líklega alveg búa sig undir fimm leikja einvígi.

Með frábærum lokaspretti sínum í deildakeppninni leiðrétti Grótta þann misskilning að Íslandsmeistararnir ættu ekkert erindi í úrslitakeppnina. Leikurinn í gær sýndi svo að það er ekkert hægt að útiloka að Íslandsmeistarabikarinn verði þriðja árið í röð til sýnis á Seltjarnarnesi.

Margir leikmenn hafa getað lagst á koddann í gærkvöld og hugsað til glataðra tækifæra til að tryggja sínu liði sigur í þessum hnífjafna leik. Hjá Stjörnunni vantaði reyndar að fleiri en Helena Rut Örvarsdóttir tækju af skarið en hún skoraði 15 mörk, þar af níu strax í fyrri hálfleik venjulegs leiktíma. Brynhildur Kjartansdóttir var „hinn“ sóknarmaður Stjörnunnar sem gat verið ánægð með sitt, en hún fékk að koma inn á síðustu tíu mínútur venjulegs leiktíma og skoraði sex mörk í röð (!) áður en hún meiddist.

Brynhildur jafnaði metin í 26:26 þegar enn voru rúmar tvær mínútur eftir, en hvorugt liðið nýtti þann tíma til að skora sigurmark. Í framlengingunum var áfram jafnt á öllum tölum þökk sé markvörðum liðanna, en Selma Þóra Jóhannsdóttir varði til að mynda þrjú skot í röð í fyrri framlengingunni og Hafdís Renötudóttir sá við aukakasti Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur.

Í seinni framlengingunni virtist Helena hafa tryggt Stjörnunni sigur með kraftmiklu skoti þegar um tíu sekúndur voru eftir, en Laufey Ásta Guðmundsdóttir kom sínu liði til bjargar með ævintýralegu skoti úr ómögulegu færi, nánast úti við hliðarlínu, um leið og leiktíminn kláraðist. Skot sem verður í minnum haft nái Grótta alla leið. Í vítakeppninni voru taugarnar þandar en Lovísa Thompson skoraði úr fimmta víti Gróttu og tryggði liðinu sigurinn.

Sjá allt um leikina í undanúrslitum Olís-deildarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert