Ísland í riðli með Danmörku

Karen Knútsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins.
Karen Knútsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins. mbl.is/Golli

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik er í riðli með með Danmörku, Slóveníu og Tékklandi í undankeppni Evrópumóts landsliða 2018 en drætti í riðlana sjö var rétt í þessu að ljúka í París.

Ísland var í fjórða og neðsta styrkleikaflokki í drættinum en það féll niður um einn flokk síðan dregið var í undankeppni EM 2016. Allar þjóðirnar sem leika í riðli með Íslendingum voru með í úrslitakeppninni í Svíþjóð í fyrra þar sem Danir höfnuðu í 4. sæti, Tékkar í 10. sæti og Slóvenar höfnuðu í 14.sætinu.

Undanriðlarnir eru sjö. Tvö efstu lið hvers riðils að keppninni lokinni tryggja sér farseðilinn í lokakeppnina auk þess liðs sem nær bestum árangri af þeim sem hafna í þriðja sæti riðlakeppninnar en lokakeppnin verður haldin í Frakklandi í desember 2018.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu lentu í riðli með Rússlandi, Úkraínu og Sviss en Norðmenn eru ríkjandi Evrópumeistarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert