Sigtryggur Daði er óstöðvandi

Sigtryggur Daði Rúnarsson.
Sigtryggur Daði Rúnarsson. Ljósmynd/ehv-aue.org

Sigtryggur Daði Rúnarsson var markahæstur þriðja leikinn í röð hjá Aue í þýsku 2. deildinni í handknattleik í kvöld. Annan leikinn í röð skoraði hann níu mörk fyrir liðið en það dugði ekki til þar sem Aue tapaði á útivelli fyrir Neuhausen, 28:24.

Aue var einu marki undir í leiknum, 13:12, en enginn skoraði meira en Sigtryggur á vellinum. Árni Þór Sigtryggsson og Bjarki Már Gunnarsson skoruðu svo sitt markið hvor fyrir Aue. Sigtryggur hefur nú skorað 25 mörk í síðustu þremur leikjum Aue í deildinni, en liðið er í 11. sætinu með 28 stig og er þrátt fyrir það aðeins tveimur stigum frá fallsvæðinu.

Fannar Friðgeirsson var svo markahæstur hjá Hamm-Westfalen í sex marka heimasigri á Eisenach, 30:24. Fannar skoraði sjö marka Hamm í leiknum, en staðan var hnífjöfn í hálfleik 15:15. Hamm er með 26 stig og er í harðri fallbaráttu. Ólafur Bjarki Ragnarsson var ekki með Eisenach í leiknum, en liðið er með 34 stig í 7. sætinu.

Ragnar Jóhannsson var svo næstmarkahæstur með 4 mörk hjá Hüttenberg sem tapaði afar óvænt fyrir Leutershausen, 25:17. Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Hüttenberg misstu þar með af mikilvægum stigum í toppbaráttunni, en liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 41 stig. Aðeins eru þrjú stig upp í annað sætið.

Þar situr einmitt Bietigheim, lið Arons Rafns Eðvarðssonar, en liðið gerði jafntefli við Rimpar, 31:31, í toppslag deildarinnar í kvöld. Aron og félagar eru með 44 stig, Rimpar í því þriðja með 42 og svo kemur Hüttenberg með 41.

Oddur Gretarsson var fór svo mikinn hjá Emsdetten sem vann átta marka útisigur á Wilhelmshavener, 35:27. Oddur skoraði sex mörk í leiknum, en Emsdetten er í 9. sætinu með 29 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert