Kominn tími á að skora fyrir utan

Ásbörn Friðriksson var markahæsti leikmaður FH í sigri liðsins gegn …
Ásbörn Friðriksson var markahæsti leikmaður FH í sigri liðsins gegn Aftureldingu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er gott að vera 2:0 yfir, en við vitum það hins vegar að þetta einvígi er ekki búið og við verðum að spila vel í þriðja leikum á fimmtudaginn til þess að klára dæmið,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is, en hann var markahæsti leikmaður liðsins með sjö mörk í 28:25-sigri gegn Aftureldingu í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handbolta að Varmá í dag.

„„Ég fann mig vel í þessum leik og náði loksins að skora með skotum fyrir utan. Við náðum að spila góða vörn og keyra vel á þá í kjölfarið. Við útfærðum hraðaupphlaupin okkar vel og náðum að skora auðveld mörk. Við hefðum hins vegar getað nýtt það hvað við spiluðum vel í fyrri hálfleik enn frekar og nýtt færin okkar betur. Mér fannst sjö marka forysta síst of lítið eftir fyrri hálfleikinn,“ sagði Ásbjörn um spilamennsku FH í leiknum í dag.

„Við megum ekki vera svo heimskir að halda að þetta sé búið þrátt fyrir góða stöðu hjá okkur.  Þeir munu mæta dýrvitlausir til leiks í Kaplakrika á fimmtudaginn kemur og það verður klárlega hörkuleikur. Þeir eru með gott lið og við verðum að sýna okkar bestu hliðar í næsta leik ef við ætlum að hafa betur í þeim leik,“ sagði Ásbjörn um framhaldið . 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert