KR í úrvalsdeildina - líklega

Arnar Jón Agnarsson, leikmaður KR, fagnar sigri KR í dag.
Arnar Jón Agnarsson, leikmaður KR, fagnar sigri KR í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

KR tryggði sér sæti í úrslitaeinvíginu um sæti í efstu deild í handbolta karla með 29:28-sigri sínum gegn Víkingi Reykjavík eftir framlengdan leik í KR-heimilinu í Vesturbænum í dag. KR mætir annað hvort Þrótti Reykjavík eða ÍR í úrslitaeinvíginu, en liðin mætast í oddaleik í einvígi sínu um þátttökuréttinn í úrslitaeinvíginu.

Arnar Jón Agnarsson skoraði sigurmarkið á lokasekúndum framlengingarinnar en staðan var 24:24 eftir venjulegan leiktíma.

Fari svo að liðum verði fjölgað í 12 lið í efstu deild á næsta keppnistímabili hefur KR nú þegar tryggt sér sæti í efstu deild. Það kemur í ljós 9. maí næstkomandi hvort fjölgun verði í efstu deild á næsta tímabili, en allt bendir til þess.

Verði liðum hins vegar ekki fjölgað mun liðið sem ber sigur úr býtum í úrslitaeinvígi KR gegn Þrótti eða ÍR fylgja Fjölni í efstu deild á næstu leiktíð.  

Theodór Ingi Pálmason var markahæstur í liði KR með sjö mörk og Egidius Mikalonis, Andri Berg Haraldsson, Bergur Elí Rúnarsson og Arnar Jón Agnarsson skoruðu fjögur mark hver.

Víglundur Jarl Þórsson var hins vegar atkvæðamestur í liði Víkings með sjö mörk og Hlynur Óttarsson, Jónatan Vignisson og Ægir Hrafn Jónsson skoruðu fjögur mark hver.

Markvörðurinn reyndi, Hreiðar Levý Guðmundsson, hefur þegar samið um að spila með KR, uppeldisfélagi sínu, á næsta tímabili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert