Löwen aftur í toppsætið

Alexander Petersson er lykilmaður hjá Rhein-Neckar Löwen.
Alexander Petersson er lykilmaður hjá Rhein-Neckar Löwen. Ljósmynd/Foto Olimpik

Rhein-Neckar Löwen komst í kvöld á nýjan leik á topp þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með auðveldum heimasigri gegn botnliðinu Coburg, 33:20.

Alexander Petersson skoraði 2 mörk fyrir Löwen en Guðjón Valur Sigurðsson fékk að hvíla sig á bekknum allan tímann. Sænski landsliðsmaðurinn Kim Ekdahl du Rietz var atkvæðamestur hjá Löwen með 8 mörk.

Löwen er með 47 stig á toppnum og Flensburg 46 en þar á eftir koma Kiel með 43 stig og Füchse Berlín með 42 stig.

Lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar í Balingen gerðu jafntefli á heimavelli, 27:27, við Lemgo í miklum fallslag. Baráttan um sæti í deildinni er gríðarlega hörð. Lemgo er með 16 stig, Gummersbach 15, Bergischer 15, Balingen 15, Stuttgart 14 og Coburg 9 stig en þrjú neðstu liðin falla. Sjö umferðum er ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert